7. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 143. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, fimmtudaginn 31. október 2013 kl. 08:31


Mættir:

Ögmundur Jónasson (ÖJ) formaður, kl. 08:31
Brynjar Níelsson (BN) 1. varaformaður, kl. 08:31
Jón Þór Ólafsson (JÞÓ) 2. varaformaður, kl. 08:44
Brynhildur Pétursdóttir (BP), kl. 08:31
Pétur H. Blöndal (PHB), kl. 08:31
Sigrún Magnúsdóttir (SigrM), kl. 08:37
Valgerður Bjarnadóttir (VBj), kl. 08:39
Willum Þór Þórsson (WÞÞ), kl. 08:31

HHj og KG voru fjarverandi.

Nefndarritari: Hildur Eva Sigurðardóttir

Bókað:

1) Fundargerðir Kl. 08:31
Nefndin samþykkti fundargerðir 2., 3., 4. og 5. fundar.

2) Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl. Kl. 08:33
Formaður tók til umfjöllunar upplýsingabeiðni nefndarinnar til Íbúðalánasjóðs en nefndin óskaði hinn 12. september sl. eftir upplýsingum um þá lögaðila sem voru og eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð sem leitt hafa til eða áætlað er að leiða muni til útlánataps auk upplýsinga um áætlað tap sé og verði. Upplýsingar hafa ekki borist og lagði formaður til að þeirra yrði óskað með vísan til 51. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Var það samþykkt.

Formaður ræddi fyrirkomulag næstu funda um málið og lagði til að óskað yrði eftir því að Hallur Magnússon kæmi á fund nefndarinnar vegna málsins. Var það samþykkt af ÖJ, BN, PHB og WÞÞ. SigrM og BP sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.

3) Þjónustusamningar við öldrunarheimili. Ábending frá Ríkisendurskoðun Kl. 08:39
WÞÞ framsögumaður málsins kynnti drög að álit nefndarinnar. Formaður lagði til að málið yrði afgreitt frá nefndinni með álitinu og var það samþykkt. Undir áliti skrifa WÞÞ, ÖJ, BN, PHB, SigrM, VBj. BP áheyrnarfulltrúi er samþykk álitinu. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru JÞÓ, HHj og KG.

4) Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna Kl. 08:43
Formaður kynnti svarbréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við erindi nefndarinnar frá 19. september um skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Skrifstofu rannsóknastofnanna atvinnuveganna (SRA). Í bréfinu kemur fram að unnið er að úttekt á starfsemi SRA og tillögur um fyrirkomulag rekstrar SRA verði unnar á grundvelli úttektarinnar. Formaður bar upp tillögu um að hætta skoðun máls enda væri málið í farvegi og unnið væri í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar. Var það samþykkt samhljóða. Nefndin hefur því lokið umfjöllun um málið.

5) 8. mál - endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands Kl. 08:44
Samþykkt var að senda málið til umsagnar og veita þriggja vikna umsagnarfrest.

6) 13. mál - þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið Kl. 08:45
Samþykkt var að senda málið til umsagnar og veita þriggja vikna umsagnarfrest.

7) 40. mál - rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu Kl. 08:46
Samþykkt var að senda málið til umsagnar og veita þriggja vikna umsagnarfrest.

8) 68. mál - kosningar til Alþingis Kl. 08:47
Samþykkt var að senda málið til umsagnar og veita þriggja vikna umsagnarfrest.

9) 86. mál - þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið Kl. 08:49
Samþykkt var að senda málið til umsagnar og veita þriggja vikna umsagnarfrest.

10) Þjóðskrá Íslands Kl. 08:52
Nefndin fékk á sinn fund Margréti Hauksdóttur forstjóra Þjóðskrár Íslands, Hermann Sæmundsson stjórnarformann Þjóðskrár Íslands og skrifstofustjóra í innanríkisráðuneyti, Pétur U. Fenger frá innanríkisráðuneyti og Jóna Inga Einarsson og Sólveigu J. Guðmundsdóttur frá Þjóðskrá Íslands. Gerðu gestir grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi skýrslu Ríkisendurskoðunar um Þjóðskrá Íslands og svöruðu spurningum nefndarmanna. Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá Þjóðskrá vegna málsins.

11) Önnur mál Kl. 09:55
Formaður tók til umfjöllunar samstarf Íslands við Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna en í fréttum hefur komið fram að Ísland sé eitt af 23 ríkjum sem unnið hafa náið með stofnuninni að gagnaöflun. Formaður lagði til að nefndin mundi taka málið til umfjöllunar með vísan til eftirlitshlutverks nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og kanna hvort grundvöllur væri fyrir þessum staðhæfingum og þá m.a. í hverju þetta samstarf gæti hafa falist, um hvaða og hvers konar gögn væri að ræða, hvaða lagaákvæði eða samningum samstarfið og gagnaöflun grundvallaðist á og hvort stjórnarskrárvarin réttindi borgara væru tryggð. Samþykkt var að stefna að fundi um málið í næstu viku.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 09:59